Við segjum gjarnan að í fullkomnu eldhúsi séu aldrei færri en fimm pönnur: Steypujárnspanna, koparpanna, karbonstálpanna, ryðfrí panna og ein viðloðunarfrí. Þessar pönnur gegna allar sínu hlutverki í eldhúsinu. Engin panna gerir allt best og ekki hægt að ætlast til þess. Þegar maður er búinn að eignast þessar fimm er hægt að fá sér þær í mismunandi útfærslum og stærðum. Það er að minnsta kosti það sem okkur eldhúsnördunum finnst. Við gerum okkur reyndar grein fyrir því, hér í Kokku, að það eru ekki allir tilbúnir að hýsa fleiri pönnur en heimilisfólk. Fullkomið eldhús þarf ekki að vera á hverju heimili og flestum dugir bara það sem virkar dags daglega. Þess vegna er mikilvægt, þegar við veljum okkur pönnu, að meta þarfir heimilisins. Hverjir eru algengustu „hversdags“ réttirnir? Hversu margir eru í heimili? Eru börn eða unglingar sem koma til með að nota pönnuna? Nennir þú að vaska hana upp í höndunum? Er þér illa við að sleppa sápunni og skiptir þig máli hversu þung hún er?
Steypujárnspönnur
Steypujárn eða pottjárn hefur verið notað við eldamennsku frá örófi alda. Flestir kannast við að hafa einhvern tímann átt eða notað steypujárnspönnu. Hún gæti jafnvel hafa verið erfðagripur. Í minni fjölskyldu er til dæmis ein sem fjórar kynslóðir hafa notað. Með tilkomu nýrrar tækni á síðustu öld þótti járnið þó heldur þungt og gamaldags. Fólk kaus frekar húðaðar pönnur eða léttari stálpönnur. Sumir viðskiptavinir okkar sem komnir eru yfir miðjan aldur viðurkenna að hafa fleygt pottjárninu í ruslið á sínum tíma en eru mættir til að endurnýja það eða kaupa í gjöf handa afkomendum. Ný kynslóð er að kynnast þessum frábæra efniviði í fyrsta skiptið og uppgötva möguleika steypujárnsins. Járnpönnur eru nefnilega með fjölhæfustu pönnum. Ég bendi fólki gjarnan á pottjárnið ef það hefur hugsað sér að eiga bara eina pönnu. Vel til steikt steypujárnspanna hefur marga af betri eiginleikum húðaðrar pönnu og enga af ókostunum en hún krefst þó smá þolinmæði. Járnpönnur henta vel til að brúna og steikja mat á háum hita. Viljir þú fá fallega brúnaða steik, stökkt grænmeti eða vel steikt egg er þó mikilvægt að gefa matnum smá tíma. Pannan er ekki viðloðunarfrí en það mætti kannski kalla hana viðloðunartrega: Þú verður að bíða eftir því að maturinn brúnist og losni þannig frá pönnunni á náttúrulegan hátt. Um leið og óþolinmæðin gerir vart við sig og þú reynir að róta í matnum of snemma fer hann að festast við. Því meira sem þú notar steypujárnspönnuna þína og steikir hana til, því minna festist við hana með tímanum. Það festist líka minna við pönnu sem er á lægri hita. Einn af kostunum við steypujárnspönnur er að þær er hægt að nota á hellu, inn í ofn og jafnvel á grillið. Bandaríkjamenn nota steypujárnspönnur mikið og þá gjarnan til að baka bæði sæta og ósæta rétti. Pönnupizzan fræga var einmitt upphaflega bökuð í steypujárnspönnu. Einnig nota vinir okkar vestanhafs pönnurnar til að baka maísbrauð, sætar bökur og sykurpúðajukk ýmis konar. Það getur verið sniðugt að steikja grænmeti á steypujárnspönnu og skella síðan í ofn ef þannig stendur á. Þannig henta þær til dæmis prýðis vel fyrir spænskar eggjabökur. Þetta á að sjálfsögðu líka við um steypujárnspotta en þeir henta einstaklega vel í hægeldun einmitt vegna þessa. Algengt er að steikja allt hráefnið til á hellu og láta það malla ásamt vökva í ofni yfir lengri tíma. Steypujárnspottur getur líka verið prýðisgóður bakstursfélagi en þeir hafa verið vinsælir í súrdeigsgerð.
Mörgum finnst mikið til um þyngdina og steypujárnið hentar til dæmis síður gigtveikum. Þú „svissar“ reyndar ekki í steypujárnspönnu og notar frekar spaða til að hreyfa við matnum. Þyngdin hefur þó þann kost að steypujárnspanna heldur hita vel og stöðugt. Stærri pönnur eru oft með eyra til móts við skaftið sem auðveldar þér að lyfta þeim. Við mælum ekki endilega með steypujárnspönnu fyrir yngstu kokkana vegna þyngsla og því þær þarf að þvo strax upp eftir notkun. Járnpönnur eru flestar steyptar í sandmót en það er ævaforn framleiðsluaðferð. Þá er nýtt mót búið til úr sandi fyrir hverja og eina pönnu sem síðan er dustað af. Þetta veldur því að pottjárn hefur heldur gróft yfirborð og misfellur eru algengar. Það er því ekki framleiðslugalli ef pannan þín er ekki rennislétt og hefur engin áhrif á virkni pönnunnar. Hún verður sléttari með tímanum. Ef þér finnst þetta alveg ómögulegt má pússa pönnuna með sandpappír en athugaðu að þá er aftur komið á byrjunarreit og þú þarft að steikja hana til. Járnpönnur þarf almennt að steikja til áður en þær eru notaðar í fyrsta skipti en steypujárnspönnurnar okkar koma „tilsteiktar“ frá framleiðanda.Steypujárn er oft mikið endurunnið og Lodge notar til dæmis afganga bæði úr eigin framleiðslu og annars staðar frá. Þannig öðlast brotajárn nýtt líf og gallaðar pönnur annað tækifæri. Engin eiturefni eru í steypujárni.
Algengar spurningar
Hvað get ég eldað í steypujárnspönnu?
Járn þolir mikinn hita og heldur honum vel. Þetta gerir það að verkum að steypujárn brúnar, grillar og „lokar“ (e: seal) mat en er líka hentugt í að malla alls konar gums. Þar koma pottarnir líka sterkir inn. Járnpönnu er gott að nota til að elda kjöt, fisk, grænmeti, pönnukökur og ommelettur meðal annars. Við mælum ekki með því að nota pottjárn til að elda sýruríkan mat því hann getur étið upp „steikinguna“. Þetta getur orðið til þess að það festist meira við pönnuna þegar hún er notuð næst og í verstu tilfellum getur pannan ryðgað í kjölfarið. Önnur afleiðing getur verið járnbragð af matnum sem þó er hættulaust. Sýruríkur matur er til dæmis sósur og súpur sem innihalda mikið af tómat, lauki eða víni. Ef þú hefur eldað eitthvað af þessu í steypujárnspönnunni mælum við með góðri smurningu af venjulegri matarolíu eftir á. Þú gætir jafnvel þurft að steikja pönnuna aftur til.
Hitnar skaftið?
Já. Steypujárn leiðir hita mjög vel og því er óhjákvæmilegt að skaftið hitni. Sumar steypujárnspönnur eru með skaft úr öðrum efniviði sem hitnar síður. Lodge pönnurnar okkar eru steyptar í heilu lagi og hitnar því skaftið til jafns við pönnuna. Hægt er að fá sérstakar skafthlífar á Lodge pönnurnar.
Hvaða áhöld má nota á pönnuna?
Það má nota öll áhöld á steypujárnspönnu. Stáláhöld skemma ekki pönnuna og þótt þau rispi hana lítillega kemur það ekki að sök. Þar sem steypujárnspönnur eru gjarnan notaðar við mikinn hita þarf þó að fara varlega í að nota áhöld úr gerviefni og alls ekki láta þau liggja í heitri pönnunni.
Mega járnpönnur fara inn í ofn?
Já, steypujárn þolir mikinn hita. Þú getur líka skellt pönnunni þinni á grillið eða varðeld, þess vegna! Undantekningarnar eru steypujárnspönnur sem eru með skaft úr öðrum efnivið. Þessar pönnur gætu þolað ofn skemur, við minni hita eða alls ekki. Lodge pönnurnar eru heilsteyptar úr járni og þola þess vegna að vera í ofni eins lengi og mikið og þú vilt.
Ég er með span. Get ég notað járnpönnu?
Já, steypujárn er hægt að nota á allar tegundir helluborða.
Hvernig þríf ég pönnuna?
Ég mæli með því að þrífa hana með heitu vatni strax eftir notkun og sleppa sápu. Stundum þarf að skafa pönnuna að innan með pottsköfu eða spaða. Þegar mikið festist við getur verið gott að setja smá vatn í pönnuna og láta suðuna koma upp en þannig losna matarleyfarnar og nóg er að nota uppþvottabursta. Sniðugt er að nota vín við þessa aðferð frekar en vatn því þannig verður til prýðis sósa. Eftir þrif er gott að smyrja pönnuna með örfáum dropum af matarolíu. Þetta ver pönnuna fyrir ryði og er sérstaklega mikilvægt ef hún hefur verið þvegin með sápu. Járnpanna má alls ekki fara í uppþvottavél eða liggja í bleyti og hana þarf að þurrka strax eftir þvott.
Hjálp! Járnpannan mín er ryðguð.
Ekki örvænta, það er afar ólíklegt að pannan sé ónýt. Reyndu að nudda ryðið burt með stálull, vaskaðu pönnuna vel upp með sápu og steiktu hana til upp á nýtt. Hún verður eins og ný í smá tíma en verður með tímanum aftur að gömlu góðu pönnunni. Ryð er eitt af fáu sem getur eyðilagt steypujárnspönnu en þú þyrftir sennilega að gleyma henni í vaskinum í mánuð til að hún ryðgi í sundur. Það er ekki óalgengt að það myndist ryðskellur á járni, sérstaklega ef það líður langt á milli þess sem hún er notuð og/eða hún geymd við of mikinn raka. Þessum skellum er hægt að ná burt með venjulegum uppþvottabursta eða stálull. Við mælum með að bera nokkra dropa af venjulegri matarolíu á pönnuna eftir þvott til að koma í veg fyrir ryð.
Get ég eyðilegt pottjárnspönnu?
Með mikilli fyrirhöfn, já. Það eru tvær leiðir til að eyðileggja járnpönnu: Að brjóta hana eða láta hana ryðga í drasl. Steypujárn er stökkara en flestir málmar og getur þar af leiðandi brotnað við mikið högg. Algengast er að skaftið brotni af. Það þarf ansi mikið ryð til að eyðileggja pottjárn. Í flestum tilfellum er hægt að pússa ryðið burt. Ég keypti einu sinni fagurrauða og ryðgaða steypujárnspönnu í Góða hirðinum sem var orðin eins og ný eftir smá skrúbb og tilsteikingu.
Hver er munurinn á emalíeruðu pottjárni og þessu svarta?
Emalíering er lag af postulíni sem umlykur steypujárnið. Það er brennt við 650-760°C og binst þannig járninu. Þetta lag ver pönnuna eða pottinn fyrir ryði og emalíerað steypujárn má tæknilega séð fara í uppþvottavél. Ég myndi þó aldrei mæla með því þar sem lítið þarf til að brotni úr pottinum og þótt smávægilegt sé er alltaf hætta á að ryð komi í brotið og jafnvel undir emalíeringuna í kring. Áhöld úr stáli geta skaðað húðina og hún er viðkvæm fyrir höggum. Það er lítið vit í járnpönnu sem er emaléruð að innan en pottarnir henta þó betur í hægeldun á sýrumiklum mat en þeir hefðbundnu.
Í stuttu máli sagt…
Kostir:
- Hægt að nota í nánast alla matargerð
- Þolir mikinn hita
- Heldur hita vel
- Má fara í ofn
- Má fara á grillið
- Nánast ódrepandi
Gallar:
- Þungt
- Getur ryðgað
- Þolir illa sýruríkan mat
- Þarf að vaska upp í höndunum
- Skaftið hitnar
- Ekki sérlega byrjendavænt